Bloggið

15 May 2024

Staðan í Kenya

Staðan í Kenya

Í Kenía búa yfir 40.000 börn á um 830 barnaheimilum - heimili sem ætluð eru munaðarlausum börnum en flest þessara barna eru í raun yfirgefin. Fjölmargar ástæður eru fyrir því að foreldrar ákveða að yfirgefa börnin sín. Ungar stelpur sem ekki hafa lokið við skólagöngu og eiga litla sem enga möguleika með lítið barn komandi úr mikilli fátækt.  Vegna mikillar fátæktar halda foreldrar að börn sín eigi möguleika á bjartari framtíð innan kerfisins og svona heldur vítahringurinn áfram. Ef það fjármagn sem fer í að halda uppi öllum þessum heimilum færi í að aðstoða fjölskyldur þyrftu ekki svona mörg börn að alast upp á barnaheimilum.  Árið 2022 settu stjórnvöld í Kenía af stað 10 ára áætlun með það markmið að loka öllum barnaheimilum landsins. Í stað þess að börn séu send á barnaheimili er áherslan sett á að hjálpa fjölskyldum í heild sinni. Styrktarfélag HRH hefur frá upphafi haft þessa nálgun að leiðarljósi og því ánægt með þær viðhorfsbreytingar sem eru að eiga sér stað í landinu. Börn eiga ekki að alast upp barnaheimilum heldur í faðmi fjölskyldu sinnar.